Ferill 821. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1646  —  821. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Orkuveitu Reykjavíkur, nr. 136/2013 (starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélaga).

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Magnús Dige Baldursson, Hrein Hrafnkelsson og Ásu Ögmundsdóttur frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti, Elínu Smáradóttur frá Orkuveitu Reykjavíkur og Eddu Sif Aradóttur frá Carbfix ohf.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Háskóla Íslands og Orkuveitu Reykjavíkur.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 2. mgr. 2. gr. laga um Orkuveitu Reykjavíkur, þess efnis að geymsla koldíoxíðs og annarra vatnsleysanlegra gastegunda í jörðu verði sérstaklega tilgreind sem verkefni Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélaga.
    Nefndin fjallaði um mikilvægi þess að ábyrgð Orkuveitu Reykjavíkur á fjárfestingum dótturfyrirtækis síns væri takmörkuð. Fyrir nefndinni kom fram að hugverk það sem orðið hefur til hjá Carbfix ohf. yrði enn á höndum þess félags, en að sú hlutafjáraukning sem stefnt væri að færi inn í dótturfélag opinbera hlutafélagsins, þar sem meginstarfsemi fyrirtækisins verður jafnframt. Ekki sé stefnt að fjárfestingu sem ætti að hafa í för með sér ábyrgðir fyrir Orkuveitu Reykjavíkur, eigendur hennar eða Carbfix ohf.
    Nefndin er einhuga um afgreiðslu málsins og leggur að framangreindu virtu til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Þórarinn Ingi Pétursson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið með heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

    Guðný Birna Guðmundsdóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 27. apríl 2023.

Stefán Vagn Stefánsson, form. Berglind Ósk Guðmundsdóttir, frsm. Ágústa Guðmundsdóttir.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Gísli Rafn Ólafsson. Inga Sæland.
Hanna Katrín Friðriksson. Haraldur Benediktsson. Þórarinn Ingi Pétursson.